top of page

HVER ERUM VIÐ?

ALMENNT

G.RUN er sjávarútvegsfyrirtæki sem sérhæfir sig í veiðum og vinnslu á bolfiski. Alla tíð höfum við lagt metnað okkar í að framleiða aðeins hágæða afurðir úr fyrsta flokks hráefni, úr hreinu hafinu umhverfis Ísland. Fyrirtækið er miðlungsstórt á íslenskan mælikvarða og hefur alltaf verið staðsett í Grundarfiði, á norðanverðu Snæfellsnesi. Fyrirtækið var stofnað í núverandi mynd árið 1974 en saga þess nær aftur til ársins 1947. Síðan þá höfum við byggt upp orðspor sem eitt af leiðandi sjávarútvegsfyrirtækjum á Íslandi, þekkt fyrir gæði. Alla tíð hefur félagið verið í eigu sömu fjölskyldunnar og hafa þrír ættliðir komið að rekstri þess og uppbyggingu. Í dag starfa að meðaltali um 85 starfsmenn hjá fyrirtækinu, við fiskveiðar, fiskvinnslu og netagerð. 

Fiskveiðar

Fyrirtækið á og gerir út tvö skip; Runólf SH 135, 26m togskip smíðað í Norgei 2007 og Hring SH 153, 29m togskip smíðað í Skotlandi 1999. Bæði þessi skip eru togskip með skutdrætti, með um 10 manna áhöfn hvort.  Hver veiðiferð er frekar stutt, eða um 2-5 dagar að jafnaði.

Fiskvinnsla

G.RUN starfrækir fullkomna landvinnslu í Grundarfirði sem sérhæfir sig í vinnslu bolfisks, einkum karfa, ýsu og þorsks. Uppbygging fiskvinnslunnar hefur verið jöfn og stöðug alla tíð. Árlega verða til um 1500-2000 tonn af tilbúnum afurðum í vinnslunni og eru starfsmenn hennar að meðaltali um 50. Lestu um vörurnar okkar hér.

Netagerð

G.RUN rekur mjög vel búið netaverkstæði þar sem þrír menn starfa. Aðal starfsemi netaverkstæðisins er gerð botntrolla fyrir fiskiskip sem gerð eru út frá Grundarfirði. Einnig hefur aukist mjög þjónusta við rækjuveiðibáta sem gerðir eru út frá Breiðafjarðarsvæðinu. Á verkstæðinu er mjög góður búnaður til víravinnslu og einnig mjög góður búnaður til vinnslu og viðgerða á hopparalengjum. Önnur þjónusta sem verkstæðið býður er sala á vírum, keðjum, lásum og ýmsum öðrum hlutum sem snúa að veiðarfærum og veiðarfæragerð. Einnig er á verkstæðinu búnaður til að taka á móti og gera við risaflottroll sem togaraflotinn notar við úthafskarfaveiðar.

SAGA

Saga G.RUN nær yfir 70 ár og er að mörgu leyti samofin sögu og vexti Grundarfjarðar sem samfélags sem byggir afkomu sína á auðlindum hafsins.

1947

Útgerðafélagið Runólfur hf. stofnað utan um rekstur trébáts sem Guðmundur Runólfsson  og fleiri létu byggja fyrir sig á Norðfirði. Báturinn fékk nafnið Runólfur SH-135.

1960

Trébáturinn Runólfur SH-135 seldur en í hans stað keyptur 115 brúttólesta stálbátur, með sama nafni, búinn kraftblökk. Bátinn hafði Guðmundur Runólfsson og fleiri aðilar látið smíða í Risör í Noregi.

1972

Guðmundur Runólfsson útgerðarmaður skrifar undir samning við skipasmíðastöðina Stálvík hf. um smíði á 47 metra löngum skuttogara, sem einnig bar nafnið Runólfur SH-135.

1974

Félagið Guðmundur Runólfsson hf. stofnað hinn 18. desember. Starfsemi félagsins í upphafi var útgerð og rekstur netaverkstæðis. 

1975

Skuttogarinn Runólfur SH-135 kemur í fyrsta skipti til Grundarfjarðar hinn 19. janúar. Í þau rúm tuttugu og þrjú ár sem skipið var í eigu félagsins landaði það hjá Hraðfrystihúsi Grundarfjarðar, síðar Sæfangi hf., auk þess sem skipið sigldi með afla á markaði erlendis.

1993

Um rekstur frystihússins í Grundarfirði sá félagið Sæfang hf. en það félag var í eigu sömu aðila og Guðmundur Runólfsson hf. Þann 30. september 1993 voru þessi tvö félög sameinuð og varð þá  til eitt fyrirtæki sem stundaði veiðar, vinnslu og rekstur netaverkstæðis, undir nafninu Guðmundur Runólfsson hf. Við sameiningu Guðmundar Runólfssonar hf. og Sæfangs hf. var mörkuð sú stefna að byggja upp öfluga bolfiskvinnslu félagsins í Grundarfirði.  Bolfiskvinnslan er meginstarfsemi fyrirtækisins og er stöðugt unnið að endurbótum á henni.  Þær endurbætur miðast við að auka afköst, hagræðingu og gæði vinnslunnar og ná þannig fram aukinni arðsemi af starfseminni.

1996

Fyrirtækið kaupir togarann Hring SH 535. Hann var í fyrstu gerður út á veiðar utan lögsögu Íslands enda ekki með veiðileyfi í íslenskri lögsögu.

 

1998

Í maí var togarinn Runólfur SH 135 seldur til Rússlands og veiðileyfi og veiðiheimildir hans fluttar yfir á Hring SH 535.  

1999

Í desember festi félagið kaup á skipunum Heiðrúnu GK 504 og Þór Péturssyni GK 505, sem nú heitir Helgi SH 135, ásamt þeim veiðiheimildum sem þeim fylgja.

2009

Tekið upp nýtt merki félagsins og opnaður nýr vefur með nýju útliti. Aukin áhersla er lögð á að afurðir félagsins innihalda engin aukaefni og eru umbúðir merktar  með sérstöku merki til að draga fram þann eiginleika vörunnar.

2018

Vefur fyrirtækisins fær nýtt útlit  og uppbygging á nýju húsi og nýrri vinnslu hafin.

2019

Nýrri vinnslu startað.

Saga
SAMFÉLAGSLEG TENGING

G.RUN er grundfirskt fyrirtæki. Það var stofnað í Grundarfirði og hefur starfað þar óslitið frá stofnun, gert út skip sín þaðan og rekið landvinnslu og netaverkstæði í yfir 50 ár.

Hjá fyrirtækinu vinna að meðaltali 85 manns, á sjó og í landi, en það lætur nærri að vera 15-20% vinnandi fólks í Grundarfirði. Við reynum að koma til móts við starfsmenn okkar og auðvelda þeim að rækja fjölskyldu- og samfélagslegt hlutverk, s.s. að foreldrum sé gert kleift að sækja viðburði sem tengjast starfi barna þeirra og fleira í þeim dúr. Fyrirtækið leitast einnig við að styrkja og efla tengsl starfsmanna innbyrðis, einkum á sameiginlegum vettvangi í gegnum starfsmannafélag og félagsskap starfsmanna. 

Við leggjum áherslu á góða umgengni, m.a. að fasteignum og lóðum sé vel við haldið og að umgengni um eignir fyrirtækisins sé til fyrirmyndar. Þannig viljum við stuðla að góðri ásýnd byggðarinnar og vellíðan íbúa og ferðamanna. Við viljum leggja okkar af mörkum til að auka gæði samfélagsins sem við störfum í, og höfum í því tilliti stutt með beinum eða óbeinum hætti ýmsa viðburði og starfsemi, t.d. íþrótta-, menningar- og góðgerðarstarf. 

Eftir því sem okkur er kleift, viljum við efla tengsl og auka þekkingu bæjarbúa á starfsemi okkar, og leggjum þar áherslu á að börnum og ungmennum gefist tækifæri til að kynna sér starfsemina með heimsóknum í fyrirtækið. 

Vefur Grundarfjarðarbæjar

Jafnlaunastefna G.Run hf

Jafnlaunastefna Guðmundar Runólfssonar hf. er órjúfanlegur hluti af launastefnu og gildir fyrir alla starfsmenn félagsins. Jafnlaunastefnan skal uppfylla viðeigandi viðmið um jafnlaunastefnur í samræmi við ÍST 85. Guðmundur Runólfsson hf. skuldbindur sig til að fylgja viðeigandi lagalegum kröfum, meðal annars lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna,  og öðrum kröfum sem félagið undirgengst varðandi meginregluna um að öllum kynjum skuli vera greidd jöfn laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.

Guðmundur Runólfsson hf. greiðir laun sem taka mið af þeim kröfum sem starfið gerir um menntun/þekkingu, hæfni og ábyrgð. Það er stefna Guðmundar Runólfssonar hf. að allir starfsmenn njóti jafnra launa og sömu kjara og réttinda fyrir sömu eða jafnverðmæt störf þannig að enginn kynbundinn launamunur sé til staðar hjá félaginu. Um skilgreiningu á launum og kjörum vísast til 9. og 10. mgr. 2. gr. laga og 19. gr. fyrrnefndra laga. Launaákvarðanir skulu vera gegnsæjar, málefnalegar og vel rökstuddar.

Til að framfylgja jafnlaunastefnunni skuldbindur Guðmundur Runólfsson hf. sig til að skjalfesta, innleiða, viðhalda og bæta stöðugt stjórnun jafnlaunakerfisins í samræmi við kröfur staðalsins ÍST 85 og ákvarða hvernig kröfur hans verða uppfylltar. Guðmundur Runólfsson hf. hefur innleitt verklag og skilgreint viðmið við ákvörðun launa þar sem hver og einn fær greitt fyrir starf sitt út frá verðmæti þess óháð kyni, kynvitund, eða öðrum ómálefnalegum ástæðum.

Umsjónarmaður jafnlaunakerfisins ber ábyrgð á jafnlaunakerfinu og sér til þess að kerfið sé skjalfest, innleitt og stöðugt uppfært. Allir stjórnendur eru skuldbundnir til að viðhalda stöðugum umbótum, eftirliti og bregðast við óútskýrðum launamun og þeim frábrigðum sem koma fram við rýni á jafnlaunakerfinu.

Fjármálastjóri ber ábyrgð á því að stefnunni sé framfylgt.

Samþykkt af stjórnendum  26.09.2022

Samfélag
Starfsfólk
STARFSFÓLK

Hafirðu áhuga á að fá nánari upplýsingar um fyrirtækið okkar eða vörurnar sem við framleiðum, hikaðu þá ekki við að hafa samband við skrifstofu okkar eða einhvern starfsmanna.

G.RUN hf
Sólvöllum 2
350 Grundarfjörður
Sími 430 3500
Fax 430 3501

 

Guðmundur Smári Guðmundsson, Framkvæmdastjóri
430-3504 / 894-1359 / smari(hjá)grun.is

Rósa Guðmundsdóttir, Framleiðslustjóri

430-3505 / 869-2701 / rosa(hjá)grun.is

Anna María Reynisdóttir, Fjármálastjóri
430-3502 / annamaria(hjá)grun.is

Guðmundur Pálsson, Yfirvélstjóri

430-3505 / 864-1776 / gummip(hjá)grun.is

Unnsteinn Guðmundsson, Tæknimaður
430-3505 / 897-6830 / unnsteinn(hjá)grun.is

Þráinn Viðar Egilsson, Netagerðarrmaður
867-6648 / thrainn(hjá)grun.is

Hólmfríður Hildimundardóttir, Verkstjóri

430 3505/861 7534 / holmfridur(hjá)grun.is 

Runólfur Guðmundsson, Stjórnarformaður
430-3500 / 892-0735 / runni(hjá)grun.is

bottom of page